154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi tímabundnu fjárframlögin. Það er vissulega rétt að þetta var tímabundið fjárframlag, alveg rétt. En þegar það er fjárheimild upp á 40 milljónir aukalega í einhverjum samningum við þriðju aðila þá ætti það að koma fram einhvers staðar, ekki satt? Af hverju eru tímabundnu framlögin einungis tilgreind í styrktar- og samningsviðaukanum en ekki hinar 40 milljónirnar? Það hefði átt að líta þannig út að það væru ekki 15 milljónir bara þarna í þessum samningsviðauka heldur 55 milljónir sem á næsta ári, 2024, samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi, yrðu 40 en ekki 55. Þetta tímabundna úrræði upp á 15 milljónir hefði horfið en eftir stæðu 40. Það er ekki nema eðlilegt að þegar maður flettir í fjárlagafrumvarpinu og er að reyna að átta sig á því hvernig opinbert fé er að fara til hinna ýmsu félagasamtaka þá sé einhver yfirsýn yfir það, heildaryfirsýn, ekki bara einhverjar breytingar fram og til baka og ekki að þegar það kemur í rauninni auður reitur þá þýði það í raun og veru 40 milljónir. Það bara gengur ekki upp. Það virkar ekki. Það er ekkert gagnsæi í því.

Varðandi stöðugleikann er ég að reyna að koma þeirri hugmynd að fólki að horfa aðeins lengra fram í tímann, að horfa ekki sífellt bara á efnahagssveifluna eins og hún er beint fyrir framan nefið á okkur, heldur að taka tillit til þess hvernig þróunin hefur verið og halda áfram einfaldlega að gera ráð fyrir því að það sé eitthvað sem muni gilda áfram. Efnahagssveiflan, ytri áhrif og ýmislegt svoleiðis, sveiflast fram og til baka í kringum það, vissulega. Þegar hún sveiflast yfir það þá erum við að safna, þegar hún sveiflast undir þá erum við að eyða á móti. Ríkið haldi bara sinni stefnu. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið raunin og gerir okkur einfaldlega enn erfiðara fyrir að rýna þessa þjónustu sem ríkið á að sinna lögum samkvæmt, (Forseti hringir.) af því að það vantar alltaf kostnaðargreiningar á bak við það, það er verið að fela þær í þessu flökti á efnahagnum sí og æ.